Skip to content

Category: Skýrslur

Skýrsla stjórnar TÍ 2014

Skýrsla stjórnar

  1. Félagið hélt áfram með mánaðarlega fundi og hélt úti fjölbreyttri dagskrá þar sem reynt var að ræða hin ýmsu málefni ásamt því að hafa skemmtikvöld á borð við spilakvöld og annað. Fundirnir voru oft vel sóttir og mörg ný andlit dúkkuðu upp hjá okkur þetta árið. Einnig var tekin umræða um að færa sig út í kvíarnar og fjalla meira um málefni transfólks sem skilgreinir sig utan flokka tvíhyggju kynjakerfisins.
  2. Hinsegin dagar og gleðigangan – Trans-Ísland var með atriði í gleðigöngu hinsegin daga sem heppnaðist ótrúlega vel og vakti mikla athygli. Einstaklingar í atriðinu voru klæddir í hvít föt og með hvítar grímur og teymdu hvort annað í bandi. Fremst voru svo tveir einstaklingar í svörtu sem voru með skilti sem stóðu á „fordómar.“ Hinir voru svo með spjöld af atburðum og fordómum sem að transfólk hefur orðið fyrir á Ísland. Atriðið vakti gríðarlega athygli og varð kveikjan af því að farið var í að tryggja transfólki einhverskonar refsivernd á Ísland.
  3. Minningardagur transfólks – Í fyrsta sinn á Íslandi var haldin formlegt athöfn á minningardegi transfólks í Fríkirkjunni, en skipulag var leitt af sameiginlegu teymi Trans-Ísland og Samtakanna 78, en í því sátu Ugla Stefanía og Örn Danival fyrir Trans-Ísland og Svandís Anna og Sigurður Júlíus fyrir Samtökin 78. Jón Gnarr borgarstjóri ávarpaði fundinn, ásamt ræðu frá formanni, minningarræðu frá Elísabetu Þorgeirsdóttur um Horst sem lést á Klambratúni og ræðum frá Önnu Kristjánsdóttur, Erni Danival og Ómel. Því næst var boðið til veislu í Samtökunum 78 og var vel mætt. Minningardagurinn heppnaðist ótrúlega vel og þarf að gera minningardaginn að stórum árlegum atburð.
  4.  Nefnd um málefni hinsegin fólks – Anna Kristjánsdóttir fékk boð fyrir hönd Trans-Ísland um að mæta á fund með alsherjarnefnd Alþingis að ræða um mögulega stofnun nefndar sem myndi vinna að málefnum hinsegin fólks. Anna Kristjáns og Ugla Stefanía fóru á fund og töluðu fyrir tillögunni, sérstaklega út frá stöðu transfólks sem er mjög veik. Í kjölfarið var tillagan samþykkt og fékk Trans-Ísland boð um að tilefna fólk í nefndina og voru Ugla Stefanía og Örn Danival tilnefnd fyrir hönd Trans-Ísland. Enn á eftir að heyrast frá Velferðarráðuneyti um stofnun nefndarinnar.
  5. Breytingar á hegningarlögum – 29. Janúar 2014 voru samþykktar breytingar á hegningarlögum, en það hafði meðal annars í för með sér að „kynvitund“ var bætt inn í upptalningu sem þýðir að í fyrsta skipti á Íslandi nýtur transfólk einhverskonar refsiverndar á Íslandi. Gott skref í rétta átt en margt sem þarf að vinna að. Vettvangur til að knúa fram breytingar verður eflaust nefnd sem fjallar um málefni hinsegin fólks.
  6. Ný heimasíða komin í loftið – loks er ný heimasíða komin í loftið. Einföld, þægileg og vel sniðin. Hefur fengið ágætis mótttökur en þarf enn að formlega kaupa lén.
Comments closed