Skip to content

Trans Ísland Posts

Ársskýrsla Trans Íslands 2015-2016

Aðalfundur Trans Íslands
Fundur settur 19. mars 2016, klukkan er 14:05, 12 manns mættir ásamt fundarstjóra.

 1. Fundur settur af formanni Trans Íslands, Elísu Björgu Örlygsdóttur-Husby. Fólk boðið velkomið og fundur byrjaði.
 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Elísa leggur fram að Daníel Arnarson verði fundarstjóri og Elín Lára Baldursdóttir verði fundarritari. Fundur samþykkti tillögur og tók því Daníel Arnarson við.
 1. Lögmæti aðalfundar staðfest. Daníel Arnarson kannar lögmæti fundar. Lögmæti byggist á því hvort að aðalfundur var boðaður með 14 daga fyrirvara. Skv. facebook síðu félagsins var boðað til aðalfundar 29. febrúar 2016 og telst því löglega boðað til aðalfundar. Engar athugasemdir voru gerðar við lögmæti og telst hann því lögmætur.
 1. Skýrsla stjórnar. Elísa, fráfarandi formaður, fór yfir skýrslu stjórnar og þá viðburði sem fóru fram á árinu.
 1. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram. Steina Dögg gjaldkeri lagði fram reikninga og fór yfir liði hans. Engar athugasemdir voru gerðar við reikninginn.
 1. Umræða og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og ársreikninga. Voru samþykkt einróma á fundi.
 1. Lagabreytingar. Engar lagabreytingar bárust fyrir árið 2016.
 1. Kosning formanns, varaformanns, ritara, og gjaldkera og meðstjórnanda. Sjálfkjörið var í öll embætti nema meðstjórnanda. Alexander Björn Gunnarson tók við sem formaður, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir hélt áfram sem varaformaður og fjölmiðlafulltrúi, Steina Dögg Vigfúsdóttir hélt áfram sem gjaldkeri, Alda Villiljós tók við sem ritari og Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir var kosin meðstjórnandi.
 1. Kosning eins endurskoðanda skoðunarmanns reikninga. Daníel Arnarson var kosinn skoðunarmaður reikninga.
 1. Ákvörðun ársgjalds. Ákveðið var að því yrði ekki breytt. 2.500 kr. almennt gjald og 1.000 kr. Fyrir námsmenn, öryrkja og aldraða.
 1. Önnur mál.
 2. a) Kosning í trúnaðarráð Samtakanna ’78. Kosnar voru Svanhvít Ada Sif Björnsdóttir og Þórunn Birna.
 3. b) Kosning í lagabreytingarnefnd. Kosin var Svanhvít Ada Sif Björnsdóttir sem mun vinna með stjórn að lagabreytingum.

Fundi slitið kl. 14:55.

Comments closed

Yfirlýsing frá stjórn Trans Íslands er varðar orðræðu í kringum aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ’78

Yfirlýsing frá nýkjörinni stjórn Trans Íslands er varðar orðræðu í tengslum við aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ‘78

Stjórn Trans Íslantransislandlogod vill byrja á að koma á framfæri að þessi yfirlýsing er ekki yfirlýsing um hvort félagið styðji aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ‘78 eður ei. Slíkt er ekki hlutverk félagsins né stjórnar Trans Íslands að ákveða, heldur hlutverk félagsfólks í Samtökunum ‘78 og aðalfunds þess.

Trans Ísland fordæmir hinsvegar þá orðræðu sem hefur verið ríkjandi um málið. Orðræðan hefur að mörgu leyti verið útilokandi fyrir marga hópa undir hinsegin regnhlífinni og hefur slíkt komið fram í orðræðu einstaklinga opinberlega sem tala meðal annars um að aðild BDSM á Íslandi hafi verið mikil afturför fyrir homma og lesbíur á Íslandi. Mikið af umræðunni hefur því snúið að hommum og lesbíum og hafa Samtökin ‘78 ítrekað verið nefnd sem félag homma og lesbía á Íslandi. Trans Ísland fordæmir þetta orðaval þar sem að saga Samtakanna ‘78 er mun flóknari og víðfeðmari en svo. Árið 1993 byrjuðu fyrstu umræður um að opna Samtökin ‘78 fyrir tvíkynhneigðum og úr því mynduðust mikil átök innan samtakanna sem lauk í raun ekki fyrr en árið 2007 þegar að tvíkynhneigt fólk var að lokum formlega tekið inn í Samtökin ‘78. Árin þar á undan hafði verið rætt um aðild trans fólks að Samtökunum ‘78 með miklum átökum um hvort trans fólk ætti heima í Samtökunum ‘78 þar sem málefni trans fólks væru af öðrum meiði og snéru að kynvitund en ekki kynhneigð. Þrátt fyrir alla kergju og ágreining varð það svo að Samtökin ‘78 urðu formlega félag hinsegin fólks á Íslandi árið 2007 og tóku formlega inn tvíkynhneigða og trans fólk. Síðan þá hafa fleiri hópar formlega verið teknir undir væng Samtakanna ‘78 og má þar nefna pankynhneigt, eikynhneigt og intersex fólk.

Samtökin ‘78 hafa því frá árinu 2007 starfað formlega sem regnhlífarsamtök hinsegin fólks á Íslandi og hafa staðið vörð um réttindi allra þeirra hópa sem falla þar undir í samstarfi við samtök á borð við Trans Ísland, Q – félag hinsegin stúdenta, Styrmi, Hinsegin kórinn, Hinsegin daga, Intersex Ísland og fleiri. Sömuleiðis hafa verið miklar breytingar á umræðu og hugmyndafræði innan trans samfélagsins og gerðist Kynsegin Ísland formlega partur af Trans Íslandi árið 2015. Okkur þykir miður að sjá fólk einblína á Samtökin ‘78 eingöngu sem samtök homma og lesbía á Íslandi og biðlum til fólks að kynna sér málin betur og vanda sig í umræðunni. Saga hinsegin samfélagsins er full af útilokun og þöggun á hinum ýmsu hópum og fordæmum við að fólk viðhaldi slíku með orðræðu sinni.

Sömuleiðis höfum við heyrt raddir fólks sem telja að hommar og lesbíur eigi að stofna sín eigin samtök burtséð frá Samtökunum ‘78. Stjórn Trans Íslands telur slíkt vera mikla afturför í réttindabaráttu hinsegin fólks sem hefur frá upphafi verið samrýmd hinum ýmsu hópum. Ef horft er til ársins 1969 þegar að Stonewall uppþotin áttu sér stað er ljóst að þar áttu aðild hinir ýmsu hinsegin hópar, svo sem trans fólk, tvíkynhneigðir, hommar, lesbíur, BDSM-hneigðir og margir aðrir hópar sem voru útilokaðir frá samfélaginu vegna sinnar kynvitundar, kyntjáningar, kyngervis, kynhneigðar, kynhegðunar, kyneinkenna og annarra þátta er snerta kynverund fólks. Við erum mikið sterkari saman og samvinna okkar getur fært fjöll. Þetta hefur sýnt sig í  því mikla og mikilvæga starfi sem Samtökin ‘78 hafa sinnt í hátt í fjóra áratugi, enda hefur sú vinna  borið í för með sér miklar viðhorfsbreytingar, félagslegar breytingar og ekki síst lagalegar umbætur í málefnum hinsegin fólks. Við viljum því biðla til fólks að gleyma ekki þeirri miklu og framúrskarandi baráttu sem Samtökin ‘78 hafa háð í áranna rás í samstarfi við hina ýmsu hópa undir hinsegin regnhlífinni. Hvað svo sem líður aðild BDSM á Íslandi að Samtökunum ‘78 og skoðunum okkar á því þá er mikilvægt að við gleymum ekki samtakamætti okkar og samstöðunni sem hefur komið okkur svo langt. Við erum sterkari saman heldur en sundruð og telur stjórn Trans Íslands að við þurfum að vanda umræðuna, koma fram við hvort annað af virðingu og passa að við útilokum ekki hvort annað með orðum eða gjörðum okkar.

Að lokum viljum við þakka Samtökunum ‘78 fyrir það frábæra starf sem þau hafa unnið og við hlökkum til að halda áfram að vinna með þeim að bættri stöðu alls hinsegin fólks á Íslandi, af öllum stærðum og gerðum.

Virðingarfyllst,
Stjórn Trans Íslands,
Alexander Björn Gunnarson, formaður (hann – he)
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, varaformaður og fjölmiðlafulltrúi (hún – they)
Steina Dögg Vigfúsdóttir, gjaldkeri (hún – she)
Alda Villiljós, ritari (hán – they)
Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir, meðstjórnandi (hún – she)

Reykjavík, 24. mars 2016.

Comments closed

Framboð til stjórnar 2016-2017

Framboð til stjórnar 2016-2017 eru eftirfarandi. Vakin er athygli á því að eingöngu er kosið um einn meðstjórnanda.

Formaður: Alexander Björn Gunnarsson
Varaformaður: Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir
Gjaldkeri: Steina Dögg Vigfúsdóttir
Ritari: Alda Villiljós
Meðstjórnandi: Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir og Svanhvít Ada (Sif Hel) Björnsdóttir.

Framboðslýsingar.

IMG_3679Alexander Björn Gunnarsson – framboð til formanns

Almennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er 27 ára og er jarðfræðingur að mennt. Ég er milli starfa eins og er en vinn sjálfboðavinnu fyrir Samtökin ´78 og Trans Ísland. Ég hef áhuga á jafnréttismálum og hagsmunabaráttu. Svo hef ég líka brennandi áhuga á líkamsrækt og bjór.

Reynsla af félagsstarfi. Ég kom inn í stjórn Trans Ísland sem stjórnarmeðlimur á miðju starfsárinu þegar fyrrverandi stjórnarmeðlimur hætti. Þá tók ég líka sæti í Trúnaðarráði Samtakanna ´78 fyrir hönd Trans Ísland.

Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Ég vil fá tækifæri til að beita mér áfram fyrir hagsmunum trans fólks. Það eru spennandi verkefni framundan, til að mynda gerð fræðslubæklings og landsþing sem er á döfinni í Nóvember, og ég vil endilega fá tækifæri til að vinna að þessum verkefnum. Félagið hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár og ég vil vera hluti af því að halda þeim drifkrafti áfram.

Hverjar eru þínar helstu áherslur? Auka fræðslu til opinberra stofnanna, sérstaklega í heilbrigðisstéttinni. Auka fræðslu í skólum landsins. Markvissari stuðningur fyrir trans fólk og aðstandendur þeirra.

Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Það væri mér heiður og ánægja að fá að sinna starfi formanns í stjórn Trans Ísland á komandi starfsári.

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir – framboð til varaformanns

uglamyndAlmennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er 25 ára kynsegin femínisti, hvít, ófötluð og stútfull af frekari forréttindum. Ég er meistaranemi í kynjafræði við Háskóla Íslands og starfa nú í fjáröflun hjá Stígamótum. Ég hef mikinn áhuga á söng, söngleikjum, tölvuleikjum og spunaspilum og hlutverkaspilum. Ég stunda jóga, skrifa og elska lélega raunveruleikaþætti á borð við Real Housewives og Survivor.

Reynsla af félagsstarfi. Hef starfað opinberlega í félagsstarfi frá árinu 2009. Var ein af stofnendum Hinsegin Norðurlands og sat þar í stjórn frá 2010-2011. Hef sitið í stjórn Trans Íslands frá árinu 2011 og er ein af talsmanneskjum trans fólks á Íslandi í dag. Hef komið fram í flestum miðlum landsins, þar á meðal útvarpi, sjónvarpi, vefmiðlum og hef skrifað mikið af greinum um trans málefni. Einnig sat ég í stjórn Q-félagsins frá 2011-2015. Ég hef starfað sem fræðslustýra fyrir Samtökin ’78 og var þar frá árinu 2012-2015, og hef einnig sitið í stjórn Samtakanna ’78 árið 2012 og var nýlega kosin inn á aðalfundi þeirra sem meðstjórnandi 5. mars síðastliðinn. Einnig hef ég starfað töluvert erlendis og sit í stjórn IGLYO (International Gay, Lesbian, Bisexual, Transgender, Queer and Intersex Youth Organization) og hef komið fram víða erlendis í viðtölum og tekið þátt í allskyns verkefnum er snúa að hinsegin málefnum.

Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Ég vil halda áfram að starfa í þágu félagsins og vera í forsvari fyrir trans fólk hérlendis. Það eru mörg spennandi verkefni sem kostur er á að fylgja eftir á næsta ári, svo sem útgáfa fræðslubæklings, vinna að frumvarpi og landsþing um réttindi trans fólks og tel ég mig hafa mikið fram á að færa í þeim verkefnum sem eru framundan.

Hverjar eru þínar helstu áherslur? Auka fræðslu og sýnileika trans fólks, stuðla að frekari lagabreytingum, koma til móts við þarfir trans fólks, koma á fót virkum stuðningshópum og vekja athygli á málefnum kynsegin og frjálsgerva trans fólks.

Annað sem þú vilt koma á framfæri? Ekki að svo stöddu. Takk fyrir mig!

Steina Dögg Vigfúsdóttir – framboð til gjaldkera

steinaSteina Dögg heiti ég og er 27 ára. Ég stunda nám við Háskóla Íslands í tölvunarfræðideild en hef einnig flugmannsmenntun á bakinu.
Ég var gjaldkeri félagsins stjórnarárið 2014-15 og fjárhagurinn hefur aldrei verið betri. Það er þó ekki síst að þakka góðu samstarfi við aðra í stjórn. Ég er einnig fráfarandi gjaldkeri í stjórn Samtakanna ’78, en mun nú koma til með að eiga meiri tíma til að vinna nær grasrótinni þar sem ég gaf ekki kost á mér þar fyrir næsta ár.
Ég vil leggja áherslu á fjölbreytileikann sem trans regnhlífin inniheldur, en á sama tíma koma til móts við ýmsar ólíkar þarfir þessara hópa. Hvernig það verður nákvæmlega verður gert hef ég bara óljósar hugmyndir um, en það mun líklega að stórum parti fela í sér meira samtal við félagana sjálfa. Að endingu vil ég bara segja: Áfram allskonar!

 

Alda Villiljós – framboð til ritara

aldaAlmennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er fætt 1988 og uppalið í Reykjavík. Eftir stúdentspróf frá MH og eitt ár í ensku við Háskóla Íslands flutti ég til London til að læra ljósmyndun. Eftir námið bjó ég stuttlega í Stokkhólmi áður en ég flutti aftur til Íslands vegna veikinda árið 2014. Það var í London sem ég byrjaði að nota ókynbundin fornöfn á ensku, en ég hafði vitað það frá því í menntaskóla að kynvitund mín passaði ekki inn í tvískipt kynjakerfið. Í Stokkhólmi var fornafnið ‘hen’ komið í almenna notkun og kynvitund mín var almennt virt, en þegar ég sá fram á að flytja aftur til Íslands fór ég virkilega að hafa áhyggjur af því að hafa engin orð til að lýsa minni upplifun. Ég birti grein á knúz.is um fornafnið hán haustið 2013 og á svipuðum tíma opnaði ég hóp á facebook fyrir kynsegin íslendinga, en ég fann fyrir mjög mikilli þörf fyrir tengsla- og stuðningsnet við fólk sem upplifði sig á svipaðan hátt og ég.
Í dag vinn ég sem sjálfstætt starfandi ljósmyndari og listskapari. Ég bý eitt með einum ketti eins og er en stefni á að stofna hinsegin katta-kommúnu í sumar!

Reynsla af félagsstarfi. Á síðasta ári hef ég setið í trúnaðarráði Samtakanna ’78 og verið meðlimur í jafningjafræðslunni. Ég vann mikla vinnu við að koma Hýryrðum, nýyrðasamkeppni fyrir hinsegin orð, í gang, en sú keppni var haldin í fyrsta sinn síðasta haust og gekk vonum framar. Ég tók einnig þátt í viðburðinum Nú skal hinsegja, sem var off-venue viðburður á Reykjavík Pride síðasta haust, en þar var ég með tvo fyrirlestra; einn um trans og kynsegin og annan um rasisma og menningarnám. Í tengslum við Pride var ég einnig í sjálfboðastarfi við að keyra út tímarit hinsegin daga og var með ljósmyndir á sýningu Press Photos í Ráðhúsi Reykjavíkur sem sýndu hinsegin fólk sem fellur ekki inní samfélagsleg norm. Ég er einn af skipuleggjendum Wotever Iceland, sem er mánaðarlegur viðburður byggður á Wotever viðburðum sem hafa verið haldnir í London og Stokkhólmi. Markmiðið er að byggja upp samfélag fyrir hinsegin fólk sem finnur sig ekki endilega í “mainstream” hinsegin menningu og að vera með öruggt pláss fyrir fólk að hittast og vera það sjálft.

Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Kynsegin Ísland formlega tekið inn sem aðildafélag Trans Íslands á síðasta ári og almennt hef ég upplifað ótrúlega mikinn stuðning og kærleik við okkur sem upplifum okkur utan kynjatvíhyggjunnar. Þó má alltaf gera betur og mér finnst það mjög mikilvægt að kynsegin samfélagið sé með rödd innan stjórnarinnar sem hefur þeirra hagsmuni að leiðarljósi. Á meðal hæfileika sem ég tel að myndu nýtast mér í þessu starfi eru til dæmis gott vald á bæði íslensku og ensku, reynsla í sjónrænum listum sem myndi til dæmis gera mér auðvelt fyrir að sjá um og skoða yfir grafíska hönnun og mikil þekking á jafnréttisbaráttu minnihlutahópa innan hinsegin samfélagsins. Ég kem vel fyrir mig orði, bæði í rituðu og töluðu máli, og get miðlað upplýsingum skýrt á samfélagsmiðlum og póstlistum.

Hverjar eru þínar helstu áherslur? Ég vil að fræðsla sé sett í fyrirrúm, en hingað til skilst mér að hún hafi að mestu farið fram sem hluti af jafningjafræðslu Samtakanna. Ég veit af eigin reynslu að það eru ekki allir jafningjafræðarar með trans eða kynsegin málefni á hreinu og ég hef sjálft orðið vitni að mistökum hjá fræðurum varðandi okkar mál. Ég myndi vilja koma upp sérstakri trans-miðaðri fræðslu sem væri hægt að fara með í skóla og í fyrirtæki, hvort sem það yrði í samvinnu við jafningjafræðsluna eða ekki. Þar að auki myndi ég vilja efla prentað fræðsluefni, í formi bæklinga, plakata, efni á netinu o.s.frv. Myndbandið sem var unnið að síðastliðið haust var frábært skref, en viðbrögðin sýndu líka að það er ennþá mjög mikið skilningsleysi varðandi trans málefni í samfélaginu og mér fannst það sýna það svart á hvítu hvað fræðsla er ótrúlega nauðsynlegur þáttur í mannréttindabaráttunni.

Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Ég reyni alltaf að kynna mér sem flestar hliðar á málunum og er með þann frábæra hæfileika að geta skipt um skoðun og jafnvel viðurkennt að ég hafi haft rangt fyrir mér. Það er samt bara 151 *alvöru* Pokémon.

 

Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir – framboð til meðstjórnanda

wE8rZP7Almennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég heiti Sandra Rós Hrefnu Jónsdóttir og verð 26 ára núna í apríl. Ég starfa sem forritari hjá Azazo. Ég er enn að vinna í að klára nám í Tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, stefnan er að útskrifast fyrir þrítugt.
Ég hef mjög gaman af flest öllu skapandi; teikna, skrifa, lesa. Ég er að vinna að því að þróa tölvuleik, sem er áframhald af lokaverkefni mínu í tölvunarfræðinni. Það geri ég í mínum eigin frítíma, þegar ég hef einhvern frítíma.

Reynsla af félagsstarfi? Ég hef verið að sjálfboðast eitthvað í kringum Samtökin ’78 og Trans Ísland, annars hef ég ekki mikið verið í skipulögðu félagsstarfi, en það breytist vonandi núna fljótlega!

Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Mig langar til þess að koma meira að því hvað félagið ákveður að gera og leggja mitt af mörkum til að hafa það frábært.

Hverjar eru þínar helstu áherslur? Að hafa hlutina fræðandi en samt ekki gleyma kjánalátunum.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? Ég er ógeðslega kúl og skemmtileg.

 

Svanhvít Ada (Sif Hel) Björnsdóttir – framboð til meðstjórnanda

svanhvit.frambodAlmennt um þig (t.d. aldur, menntun, starf, áhugamál). Ég er fædd 1979 sem gerir mig 37 ára á þessu ári. Ég hef bakgrunn í myndlist, grafík og tölvunarfræði og hef unnið við allt þrennt á mismunandi tímum á ævinni minni. Eins og er sinni ég störfum sem Technical Artists hjá CCP Games og hef unnið þar í nær áratug. Áhugasvið mín eru á öllum stöðum en þau helstu eru myndlist(teikna/mála), skrif(ljóð og sögur á ensku) og svo ýmislegt tengt tækni og forritun. Þess á meðal hef ég áhuga á ýmsu öðru eins og tölvuleikjum, borðspilum, Warhammer, líffræði, skautum, hjólaskautum og margt fleira. Í raun er ég þannig að ef einhver selur mér inn á áhugamál þá tek ég þátt í því og reyni að hafa gaman af. Ef ég hefði aðeins fleiri tíma í sólarhringnum þá væri ég eflaust með margfalt fleiri áhugamál.

Reynsla af félagsstarfi. Reynsla mín er á víð og dreifð þar sem ég hef snert á mörgu í gegnum árin. Ég var í ritstjóranefnd Háskólablaðs Háskólans í Reykjavík seinasta árið mitt þar og var ég einnig í stjórn nemendaráðs Japönsku nema á sínum tíma. Einnig hef ég mikla reynslu af að vinna í Scrum umhverfi(https://en.wikipedia.org/wiki/Scrum_(software_development)) og tel það geta hjálpað á öðrum sviðum en bara hugbúnaðarhönnun.

Hvers vegna viltu verða hluti af stjórn Trans Íslands? Þó mér finnist að Trans Ísland hafi gert frábæra hluti í gegnum tíðina þá finnst mér eins og það sé alltaf hægt að gera betur og ég vona þess að með mína þekkingu á fjölbreyttum sviðum að ég gæti hjálpað félaginu enn meira með fullri þátttöku minni. Einnig langar mig að hjálpa félaginu að byggja betri og sterkari ímynd gagnvart þjóðfélaginu.

Hverjar eru þínar helstu áherslur? Mínar helstu áherslur yrðu að sjá hvort ekki væri hægt að bæta upp á samfélagsnet hópsins. Mig langar t.d. að sjá hvort við getum ekki gert fleiri hluti saman eins og íþróttir, bíóferðir og fleira. Hlutir sem geta hjálpað okkur að mynda tengsl milli okkar sem mannvera óháð skilgreiningum sem samfélagið setur á okkur. Finnst nefnilega að við getum orðið sterkari ef við þekkjum hvort annað betur og stundum alls konar hluti í sameiningu. Við erum fjölbreyttur hópur sem hefur upp á margt að bjóða en eigum oft erfitt með að kynnast hvort öðru. Þetta er eitthvað sem ég vil bæta. Mér finnst einnig vanta góðann og haldbærann gagnagrunn(eins og FAQ t.d.) fyrir meðlimi til að lesa og nýta sér. Hef tekið eftir því að fólk fer oft í gegnum ferlið einungis með orð lækna að hendi og vita stundum ekki hvað það eigi að taka til bragðs ef hlutirnir eru öðruvísi en ætlast. Þetta er eitthvað sem gaman væri að bæta úr og byggja upp. Einnig vil ég hjálpa félaginu að halda áfram því æðislega starfi sem það hefur unnið í gegnum í tíðina og gefa félaginu tækifæri á að nýta þá reynslu sem ég hef að geyma.

Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Textinn að ofan hljómaði rosalega „official” og ég get lofað ykkur að ég er ekki þannig in person. Finnst gaman að kynnast fólki og sjá hvað fær það til að tifa og vakna á hverjum degi.

Comments closed

Grundvallar munur á trans og intersex

Grundvallarmunur á intersex og trans

Þessi grein fjallar um almennan mun á málefnum trans og intersex einstaklinga á Íslandi. Hún er þýðing og staðfæring hliðstæðrar greinar sem fjallar um reynslu trans og intersex einstaklinga í Ástralíu.

Ólíkt trans og kynsegin fólki er intersex fólk ekki hluti af trans-regnhlífinni. Intersex vísar ekki til fjölbreytileika í kynvitund, því það að vera intersex snýst ekki um kynvitund eða kynleiðréttingu. Intersex er hugtak yfir meðfæddan breytileika á líffræðilegum kyneinkennum.

Intersex, trans, og aðlöðun að eigin kyni eru aðskild hugtök og málefni. Intesex fólk stendur frammi fyrir  sérstökum áskorunum þegar kemur að heilbrigðis- og mannréttindamálum. Þær læknisfræðilegu aðferðir sem beitt er í meðferð einstaklinga með intersex breytileika þýða að intersex hreyfingin á margt sameiginlegt með réttindabaráttu fatlaðra. Intersex samfélagið og intersex samtök verða að einblína á málefni intersex einstaklinga.

Við gerum okkur grein fyrir því að sumir einstaklingar með intersex breytileika fá kynskráningu sinni breytt og að sumir þeirra skilgreina sig sem trans. Þetta er engu merkilegra en þegar intersex eða trans einstaklingar eru samkynhneigðir. Margir intersex einstaklingar sem fara í kynleiðréttingu ganga í gegnum sérstaka erfiðleika sem orsakast af því að framkvæmdar höfðu verið aðgerðir á þeim til að laga líkamlegt útlit þeirra að röngu úthlutuðu kyni. Af þessum sökum eiga mörg atriðanna í hægri dálkinum við.

 

Trans / breytileiki á kynvitund Intersex / breytileiki á líffræðilegu kyni
Engin tvíræðni á líffræðilegum kyneinkennum. Náttúrulegur breytileiki á kyneinkennum samræmist ekki væntingum samfélagsins um það sem sé „eðlilegt“.
Kynvitund einstaklings fer á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu Líffræðileg frávik sem hafa áhrif á allan líkamann, þ.m.t. breytileiki á genum, litningum, hormónastarfsemi og ytri og innri kynfærum.
Heil og starfhæf æxlunarfæri, í það minnsta áður en hormónameðferðir og/eða legnám, kynfæraaðgerðir og/eða aðrar aðgerðir eru framkvæmdar á æxlunarfærum. Fyrir utan einstaka greiningar eins og CAH (ofvexti/hýperplasíu á nýrnahettum) er ólíklegt að einstaklingurinn geti eignast afkvæmi vegna breytileika á æxlunarfærum.
Líkt og hjá einstaklingum sem laðast að sama kyni getur verið mælanlegur breytileiki á birtingu kynvitundar í heilastarfsemi. Intersex breytileiki getur haldist í hendur við annan líkamlegan breytileika eða (í sumum tilvikum) breytileika á heilastarfsemi.
Valkvæð kynleiðrétting sem getur farið fram með skurðaðgerðum og/eða hormónagjöf og verið tímabundin eða varanleg.
Eineggja tvíburi trans manneskju er ekki endilega trans. Eineggja tvíburi intersex manneskju er líka intersex, nema í sjaldgæfum tilvikum þar sem um erfðafræðilega mósaík er að ræða (en þá má deila um hvort hugtakið „eineggja“ eigi við).
Grundvallarskilningur á kynleiðréttingu. Skortur á skilningi á því hvað intersex er. Intersex oft ruglað saman við kynvitundir utan tvíhyggjunnar (kynsegin).
Takmörkuð lögverndun mannréttinda. Engin mannréttindalöggjöf.
Breyting á nafni og kynskráningu möguleg að undangengnu 18 mánaða kynleiðréttingarferli. Einungis hægt að skrá kyn sem “karl” eða “kona”. Lagalegur réttur til breytingar á nafni og kynskráningu er óljós.
Réttur til hjúskapar tryggður óháð kynskráningu einstaklingsins eða verðandi maka. Réttur til hjúskapar tryggður óháð kynskráningu einstaklingsins eða verðandi maka.
Meðferð með skurðaðgerðum og/eða hormónagjöf er óheimil þar til einstaklingurinn er nógu gamall til að veita upplýst samþykki Inngrip með skurðaðgerðum og/eða hormónagjöf er talin nauðsynleg og henni beitt áður en einstaklingurinn hefur aldur til að veita samþykki
Sjúkdómsvæðing með notkun hugtaksins „kynáttunarvandi“ í löggjöf og læknismeðferð. Sjúkdómsvæðing með beitingu hugtaksins „DSD“ (e. Disorder of Sexual Development)
Trans einstaklingar sem falla innan kynjatvíhyggjunnar hafa aðgengi að þróuðum læknisfræðilegum úrræðum sem skila góðum niðurstöðum og hafa verið prófuð gaumgæfilega með langvarandi rannsóknum og eftirfylgni. Enn skortir næganlegar rannsóknir á stöðu Trans barna. Margs konar meðferðarúrræði hafa verið þróuð fyrir einstaka greiningar á sextíu ára tímabili, einkum aðgerðir til „normgera“ kynfæri og kyneinkenni; engin langvarandi eftirfylgni og engar haldbærar sönnur á góðum niðurstöðum
Örugg og skilvirk lyf aðgengileg sem hluti af kynleiðréttingarferli Óviðeigandi og skaðlegum lyfjum beitt þegar einstaklingar samræma sig ekki greiningu eða væntingum um kynvitund; takmarkað aðgengi að viðeigandi lyfjum sem hafa verið rannsökuð í þaula
Réttur til að velja hvenær skurðaðgerðir skuli fara fram; aðgengi að stuðningi frá jafningjahópi Takmarkað aðgengi að lyfjum og hormónum
Þátttaka í skurðaðgerða- og hormónameðferð á eigin forsendum og með upplýstu samþykki Skurðaðgerðir oft framkvæmdar án samþykkis; vilyrði fyrir skurðaðgerðum er oft fengið með þvingunum og án þess að einstaklingurinn hafi aðgengi að stuðningi frá jafningjahópi
Engin meðgönguskimun; engar fóstureyðingar á grundvelli kynvitundar Hægt er að skima fyrir ýmsum intersex einkennum á fósturstigi og eyða fóstri á grundvelli þess að það sé intersex
Skaðlegum lyfjum beitt á þungaðar konur til að koma í veg fyrir fæðingu intersex einstaklinga; þetta getur leitt til heilaskaða fyrir fóstrið
Staða m.t.t. þátttöku í keppnisíþróttum innanlands óljós. Geta þurft að gangast undir óafturkræfar skurðaðgerðir til að mega keppa í íþróttum í samræmi við kynvitund sína á erlendri grund;  mega yfirleitt keppa í því kyni sem var úthlutað við fæðingu Staða m.t.t. þátttöku í keppnisíþróttum innanlands óljós. Geta þurft að gangast undir óafturkræfa kynkirtlatöku eða snípskurð til að mega keppa í íþróttum erlendis, hvort heldur sem er í því kyni sem úthlutað var við fæðingu eða í samræmi við eigin kynvitund
Mörg öflug alþjóðasamtök sem standa í réttindabaráttu. Trans-Ísland (stofnað 2007) eru stuðnings- og baráttusamtök fyrir trans fólk á Íslandi og hagsmunaaðilar að Samtökunum ’78, félagi hinsegin fólks á Íslandi. Fá öflug alþjóðasamtök sem standa í réttindabaráttu, en hefur þeim fjölgað ört á seinustu árum. Intersex Ísland (stofnað 2014) eru stuðnings- og baráttusamtök fyrir intersex fólk á Íslandi og hagsmunaaðilar að Samtökunum ’78, félagi hinsegin fólks á Íslandi.

Þýðandi: María Helga Guðmundsdóttir.

Comments closed

Opnað fyrir félagaskráningu

Trans Ísland hefur nú opnað fyrir skráningu á meðlimum. Ekki verða sendir út reikningar en við hvetjum meðlimi til að greiða félagsgjöldin sem eru hófleg og stuðla að uppbyggingu félagsins.

Hægt er að skrá sig hér.

Comments closed