Skip to content

Tag: kynsegindagurinn

Kynsegindagurinn 2017

Bóndadagur og konudagur hafa verið haldnir hátíðlegir síðan um miðja 19. öld með svipuðum hætti og við þekkjum í dag. Áður tíðkaðist jafnvel að halda upp á yngismeyja- og yngissveinadag á sama hátt, en allir þessir dagar tengdust gamla dagatalinu okkar og var því breytilegt hvaða dag ársins þá bar upp miðað við okkar tímatal.

Síðustu tvö ár hafa Kynsegin Ísland og Trans Ísland haldið hátíðlegan kynsegindag, en hann er viðbót við bónda- og konudag og er nú haldinn síðasta dag einmánuðar, eða síðasta vetrardag. Með því að halda upp á þennan dag vonumst við til þess að hefð skapist fyrir því að bjóða kynsegin ástvinum mat, blóm eða annað fallegt og að sú hefð verði jafn sjálfsögð og hefðir konu- og bóndadagsins.

En hvers vegna er þörf á nýjum degi?

Á síðustu árum hefur kynsegin fólk loksins eignast orð til að lýsa því hvernig það upplifir sig. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að þessi hópur hafi ekki verið til áður, heldur eingöngu að hann átti engin orð til að tala um sig og var þess vegna ósýnilegur. Í dag er tilvist kynsegin fólks loksins komin fram á sjónarsviðið og kynsegin einstaklingar geta nú talað um kynvitund og kyngervi sitt eins og það er, án þess að þurfa að sætta sig við það að rangkynja sjálft sig til þess eins að fá að vera með í samfélaginu.

Ný persónufornöfn eins og hán, hín og hé hafa rutt sér rúms í tungumálinu og slík viðbót er gríðarlega mikilvæg til að skapa rými fyrir fólk sem tilheyrir ekki einungis kvenkyni eða karlkyni. Betur má þó ef duga skal og þess vegna viljum við bæta kynsegindeginum við þessa gömlu hefð. Þegar tungumálið og hefðirnar hafa samþykkt kynsegin fólk sem eðlilegan hluta samfélagsins mun það auðvelda öðrum að samþykkja kynsegin fólk. Með þessu móti getum við gert samfélag okkar opnara og gert það að verkum að hópur fólks mun ekki finna fyrir þörf til að bæla mikilvægan hluta af sjálfu sér til að falla í hópinn.

Gleðilegan kynsegindag!

Comments closed

Fréttatilkynning vegna kynsegindagsins

villiljos.com
Kynsegindagurinn verður haldinn í annað sinn þann 20. apríl nk. Dagurinn er haldinn í anda konudagsins og bóndadagsins, en kynsegin fólk skilgreinir sig almennt utan þessara tveggja flokka og getur því oftast ekki tekið þátt í þeim dögum. Auk þess að hvetja fólk til að fagna kynsegin manneskjum í sínu lífi, t.d. með blómum, gjöfum eða almennt með fallegum orðum og/eða gjörðum, ætlar Kynsegin Ísland, í samstarfi við Trans Ísland, Wotever Iceland og Samtökin ’78 að halda upp á daginn með opinni fræðslu.

Fræðslan verður haldin í húsnæði Samtakanna ’78 að Suðurgötu 3, en hún verður á léttu nótunum og það verður opið fyrir hvers kyns spurningar eftir stutta kynningu á því hvað kynsegin er og hvað það þýðir að vera kynsegin. Við viljum hvetja sem flest til að koma á kynninguna og til að sækja sér fræðslu um hvað það er að vera kynsegin (e. genderqueer eða non-binary), t.d. í gegnum Kynsegin Ísland (facebook.com/nonbinaryiceland) eða Trans Ísland (transisland.is).

Húsið opnar klukkan 18 en fræðslan byrjar 18:30. Húsnæðið er aðgengilegt fyrir hjólastóla.

Comments closed