Orðalisti

Fleiri orð og hugtök má finna á www.otila.is
  • Kynstaðfestandi aðgerðir: Sem hluti af kynstaðfestandi ferli (sjá: Kynstaðfestandi ferli/kynleiðréttingarferli) getur trans fólk valið að gangast undir skurðaðgerðir til að breyta líkama sínum svo hann falli betur að kynvitund þeirra. Meðal þeirra aðgerða sem trans fólk hefur val um eru: kynfæraaðgerð, þar sem kynfærum er breytt frá typpi í píku eða öfugt; brjóstnám, þar sem brjóst eru minnkuð eða alveg fjarlægð; brjóstastækkun eða brjóstauppbyggingu, þar sem brjóst eru stækkuð; andlitsaðgerðir, þar sem beinabyggingu andlits er breytt; og aðgerð á barkakýli, þar sem barkakýli er minnkað eða alveg fjarlægt. Hversu margar, ef nokkrar, aðgerðir trans einstaklingur fer í er ávallt undir þeim sjálfum komið og það er misjafnt eftir einstaklingum hversu mikil þörfin fyrir líkamlega breytingu er.
    Enska: Sex reassignment surgery, gender reassignment surgery, gender affirming surgery
  • Algerva: Notað yfir kynvitund þeirra sem upplifa sig sem öll kyn. Sumir upplifa sig sem öll kyn í einu en aðrir flakka á milli (sjá: Flæðigerva).
    Enska: Pangender
  • Brjóstnám: Sjá: Kynstaðfestandi aðgerðir.
  • Dragdrottning: Orð sem nær yfir karlkyns skemmtikrafta sem klæðast upp sem konur í þeim tilgangi að skemmta öðrum. Þó að sumt trans fólk taki þátt í dragi er það mun algengara að drag skemmtikraftar séu sís.
    Enska: Drag queen
  • Dragkóngur: Notað yfir konur sem klæðast upp sem karlmenn með þeim tilgangi að skemmta öðrum. Þó að sumt trans fólk taki þátt í dragi er það mun algengara að drag skemmtikraftar séu sís.
    Enska: Drag king
  • Dulkynja: Notað yfir kyntjáningu einstaklings sem fellur ekki auðveldlega að kvenkyns eða karlkyns kyntjáningu. Dulkynja snýr að útliti og kyntjáningu einstaklingsins og því geta dulkynja einstaklingar verið með hvaða kynvitund sem er. Það þekkist þó að fólk aðhyllist orðinu sem kynvitund og þá oft notað af fólki sem er kynsegin (sjá: Kynsegin) og reynir að tjá kyn sitt á hátt sem er ekki auðlæsilegur af öðrum sem kvenkyns eða karlkyns. Sjá einnig: Vífguma
    Enska: Androgynous
  • Eigerva: Notað yfir kynvitund þeirra sem upplifa sig ekki sem neitt kyn; finna ekki neina kynvitund með sér. Orðið samsvarar íslenska orðinu eikynhneigð (e. asexual).
    Enska: Agender, Neutrois
  • Flæðigerva: Notað yfir kynvitund þeirra sem upplifa kynvitund sína sem flæðandi, eða flakka á milli mismunandi kyngerva, kyntjáningar og kynvitundar.
    Enska: Gender fluid
  • Frjálsgerva: Stundum notað sem samheiti yfir kynsegin (sjá Kynsegin) og getur átt við kynvitund sem fellur ekki beint í einungis karlkyns eða kvenkyns rammana, en er ekki sérlega skilgreind nánar en það.
    Enska: Non-binary, Genderqueer
  • FTM: Ensk skammstöfun á „female to male,“ þ.e. þegar manneskju er úthlutað kvenkyni við fæðingu en skilgreinir sig sem karlmann (trans karl). Mörgum trans körlum finnst þessi skilgreining ekki rétt, þar sem þeir hafa ekki upplifað sig sem kvenkyns áður, en öðrum finnst þægilegt að nota þessa útskýringu og vilja jafnvel tengja við fortíð þar sem þeir voru aldir upp í kvenhlutverki.
  • Hinsegin: Regnhlífarhugtak sem er notað yfir samfélag þeirra sem eru með kynhneigð, kynvitund eða kyneinkenni sem eru á skjön við samfélagsleg norm. Hinsegin sem regnhlífarhugtak nær þá t.d. yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, eikynhneigða, trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk.
    Orðið var upphaflega notað í niðrandi tilgangi af fólki utan samfélagsins, en hefur fengið uppreisn æru og er nú notað af stórum hluta hinsegin fólks um sig sjálft.
    Enska: Queer
  • Intersex: Orð fyrir fólk sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni. Þetta getur t.d. átt við hormónaframleiðslu, litninga, kynfæri, æxlunarfæri og fleira. Intersex fólk er oft sent í óþarfa skurðaðgerðir sem ungabörn og kennt að fela intersex einkenni sín fyrir umheiminum. Fyrir frekari upplýsingar um intersex bendum við á heimasíðu Intersex Íslands.
  • Klæðskiptingur: Fólk sem klæðir sig í föt sem eru hefðbundin fyrir annað kyn, t.d. karlar sem klæðast ofur kvenlegum fötum eða konur sem klæðast ofur karlmannlegum fötum. Oft er um að ræða fólk sem hafa enga löngun til að leiðrétta kyn sitt en hefur gaman að eða fær jafnvel kynferðislega útrás úr því að klæða sig á þennan hátt. Ólíkt dragi (sjá: Dragdrottning og Dragkóngur), sem snýst að miklu leyti um sýningu og skemmtun, eru klæðskiptingar oft tregari til að opinbera þörf sína fyrir því að klæða sig á þennan hátt og leyndin getur jafnvel verið hluti af upplifuninni.
    Enska: Cross-dresser, transvestite (úrelt)
  • Kynami: Orð yfir þá tilfinningu sem skapast þegar kynvitund einstaklings stangast á við líkamleg kyneinkenni hans, eða þegar sýn samfélagsins á einstaklingnum stangast á við upplifun hans. Þessari tilfinningu fylgir oft mikil vanlíðan og aftenging einstaklings við líkama sinn. Þá var kynami, eða kynáttunarvandi (úrelt), áður notaður sem sálfræðileg greining sem trans fólk þurfti að vera greint með til að fá aðgang að læknisfræðilegum hluta kynstaðfestandi ferlisins hér á landi, og er víða enn.
    Enska: Gender dysphoria
  • Kynfæraaðgerð: Sjá: Kynstaðfestandi aðgerðir.
  • Kyngervi: Menningarlegar hugmyndir og væntingar um kyn fólks.
    Enska: Gender
  • Kynhneigð: Hugtak sem útskýrir kynferðislega hrifningu einstaklings. Sem dæmi eru: samkynhneigð, gagnkynhneið, tvíkynhneigð, eikynhneigð og fleira. Sjá einnig: Rómantísk hneigð
    Enska: Sexuality
  • Kynstaðfestandi ferli/kynleiðréttingarferli: Orð yfir ferli sem sumt trans fólk kýs að fara í gegnum. Hluti af ferlinu felst í því að einstaklingurinn breyti kyntjáningu sinn, t.d. að klæðast fötum sem falla betur að kynvitund einstaklingsins; fjarlægja líkamshár eða leyfa þeim að vaxa óáreitt; hreyfa sig á annan hátt og margt fleira sem á þátt í að breyta því hvernig samfélagið les kyngervi einstaklingsins.
    Annar hluti af ferlinu er læknisfræðilegur, en með því að byrja kynstaðfestandi ferli hjá lækni getur einstaklingurinn t.d. valið að fara í hormónameðferð, fara í talþjálfun, gangast undir skurðaðgerðir og fleira. Læknisfræðilegur hluti ferlisins á Íslandi fer fram í gegnum transteymi Landspítalans og er hægt að lesa meira um það hér.
    Enska: Transition, transitioning.
  • Kynsegin: Hugtak sem nær yfir einstaklinga sem skilgreina sig sem ekki eingöngu karlkyns eða kvenkyns. Kynsegin er regnhlífarhugtak en getur líka verið notað eitt og sér fyrir kynvitund einstaklings. Undir kynsegin regnhlífinni eru t.d. tvígerva, algerva, flæðigerva, eigerva og fleiri kynvitundir og -gervi.
    Enska: Non-binary, genderqueer
  • Kynskiptiaðgerð: Gamalt orð fyrir kynfæraaðgerð, niðrandi. Sjá: Kynstaðfestandi aðgerðir.
  • Kynskiptingur: Gamalt orð fyrir trans konur og trans karla. Þetta orð er almennt talið niðrandi og er ekki notað lengur.
  • Kyntjáning: Hvernig einstaklingur tjáir kyn sitt og kynvitund út á við, til dæmis með hegðun, hreyfingum, klæðaburði, raddbeitingu og líkamsburði.
    Enska: Gender expression
  • Kynvitund: Upplifun einstaklingsins af eigin kyni.
    Enska: Gender identity
  • Kynusli: Notað yfir það að leika sér með kynhlutverk og kyntjáningu og tjá kyn sitt á skjön við það sem kyngervi einstaklingsins eða væntingar samfélagsins um kyn hans segir til um.
    Enska: Genderfuck, gender non-conforming
  • MTF: Ensk skammstöfun á „male to female,“ þ.e. þegar manneskja sem er úthlutað karlkyni við fæðingu en skilgreinir sig sem kvenmann (trans kona). Mörgum trans konum finnst þessi skilgreining ekki rétt, þar sem þær hafa ekki upplifað sig sem karlkyns áður en öðrum finnst þægilegt að nota þessa útskýringu og vilja jafnvel tengja við fortíð þar sem þær voru aldar upp í karlhlutverki.
  • Rómantísk hneigð: Hugtak sem útskýrir rómantíska hrifningu einstaklings. Hugtakið á uppruna sinn innan samfélags eikynhneigðra en þar er algengt að fólk skilji að rómantíska og kynferðislega hrifningu. Sem dæmi getur manneskja fundið fyrir kynferðislegri hrifningu að öllum kynjum en einungis fundið fyrir rómantískri hrifningu (þ.e. langað í rómantískt samband) að sama kyni.
    Enska: Romantic attraction
  • Sís: Íslenskun á latneska forskeytinu cis*, og í þessu tilfelling stytting á enska orðinu cisgender. Orð sem er notað yfir fólk sem er ekki trans. Mikilvægi þessa orðs felst m.a. í því að áður var einfaldlega talað um trans fólk og „venjulegt“ fólk. Til að árétta það að trans fólk sé ekki „óeðlilegt“ var orðið cisgender búið til og nú er almennt talað um trans fólk og sís fólk.
    *Cis þýðir á latínu „sömu megin við“ á meðan trans þýðir „hinum megin við“. Þessi forskeyti eru bæði notuð á mjög mörgum öðrum sviðum og oft sem andstæður.
  • Trans: Trans er regnhlífarhugtak fyrir allt það fólk sem er með kynvitund, kyntjáningu eða kyngervi sem er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu. Trans er stytting á „transgender“, en bæði orðin eru lýsingarorð og því er ekki við hæfi að nota það sem nafnorð (s.s. „Konur, karlar og trans,“ eða „Trans eru velkomin“). Auk þess er ekki við hæfi að skeyta orðinu framan við önnur orð (t.d. transkona, transkarl, transfólk), heldur er réttara að segja trans kona, trans karl og trans fólk.
    Enska: Trans, transgender
  • Trans karl/karlmaður/maður: Notað fyrir trans fólk sem var úthlutað kvenkyni við fæðingu en er með karlkyns kynvitund.
    Enska: Trans man, transgender man
  • Trans kona: Notað fyrir trans fólk sem var úthlutað karlkyni við fæðingu en er með kvenkyns kynvitund.
    Enska: Trans woman, transgender woman
  • Tvígerva: Einstaklingur sem hefur tvær kynvitundir, þ.e. upplifir það að vera t.d. bæði karlkyns og kvenkyns. Sumum finnst hliðarnar vera mis-sterkar og í sumum tilfellum fer það eftir dögum hvor hliðin er meira ráðandi.
    Enska: Bigender
  • Two Spirit – Orð sem er notað yfir frumbyggja Norður Ameríku sem eru kynsegin. Orðið sjálft á menningarlegar og sögulega rætur þar og því er ekki við hæfi að fólk sem er ekki hluti af ættbálkum frumbyggja N-Ameríku noti orðið yfir sig. 
  • Vífguma: (Sjá: Dulkynja)



Heimildir: http://www.glaad.org/reference/transgender

http://www.transequality.org/issues/resources/transgender-terminology

https://www.samtokin78.is/frettir/nyjar-frettir/5908-buridh-mitt-er-vifguma-hyryrdhi-2015