Upplýsingar

Upplýsingar fyrir trans fólk og aðstandendur

Oft er ekki síður mikilvægt fyrir aðstandendur að leita sér ráðgjafar, fræðslu og stuðnings. Samtökin ’78 eru með í boði fría ráðgjafa þjónustu fyrir fólk sem þarfnast ráðgjafar varðandi málefni sem tengjast hinsegin fólki og er hægt að hafa samband við þau á skrifstofa@samtokin78.is eða með því að bóka ráðgjöf á netinu.

Sigga Birna Valsdóttir, ráðgjafi hjá Samtökunum ’78, hefur haldið úti aðstandendahóp fyrir aðstandendur trans fólks sem og hóp fyrir trans börn og unglinga. Hægt er að hafa samband við Siggu Birnu í tölvupósti, siggabirna@samtokin78.is, og fá aðgang að hópnum.

Trans Ísland heldur líka öðru hvoru sérstaka fundi tileinkaða aðstandendum. Þeir eru auglýstir sérstaklega hér á síðunni og facebook síðu félagsins.

Sérstakt teymi innan Landsspítala heldur utan um þá heilbrigðisþjónustu sem er í boði fyrir trans fólk og starfar náið með því trans fólki sem leitar þangað. Til að byrja formlegt ferli hjá teyminu þarf aðeins að senda tölvupóst á transteymi@landspitali.is og fá þannig tíma hjá fagaðilum teymisins. Athugið að ekki þarf lengur að fá tilvísun frá heimilislækni.Hjá teyminu eru í boði hormónameðferðir, skurðaðgerðir, talþjálfun og iðjuþjálfun.

Einstaklingar sem hyggjast byrja ferli þurfa eins og staðan er í dag er slíkt ferli rammað inn skv. lögum nr 57/2012 og er kallað „ferli til kynleiðréttingar.“ Gengið er út frá því að einstaklingar upplifi sig sem karl eða konu og er því óljóst hvaða þjónusta er í boði fyrir kynsegin (e. genderqueer) og non-binary fólk hérlendis.Teymi Landspítala skiptir svokölluðu „kynleiðréttingarferli“ gróflega í þrjú skref:

Undirbúningsferli (e. real life test)

Einstaklingur byrjar að lifa í samræmi við kynvitund, velur sér nýtt nafn, segir vinum og vandamönnum og allt sem viðkemur því. Einstaklingar þurfa að hitta einstaklinga í sérfræðinefndinni reglulega sem vega og meta hversu vel einstaklingurinn er að fitja sig í samfélaginu. Þetta skref tekur að jafnaði hálft ár til ár, en er mjög einstaklingsbundið hversu langan tíma.

Hormónaferli

Einstaklingur fær samþykki frá fyrrnefndri nefnd til að byrja á hormónum. Hægt er að fá bæði estrógen, testósterón og testósterón blokkera. Estrógen er í tölfuförmi, plástursformi og sprautum, testósterón í sprautuformi og testósterón blokkerar í töfluformi. Kynhormónin hafa svo í för með sér miklar líkamlegar breytingar sem eru sambærilegar þegar að einstaklingar ganga í gegnum kynþroskan. Innkirtlafræðingur innan nefndarinn fer vel yfir alla þætti hormónameðferðar áður en hún hefst. Einstaklingar þurfa alltaf að vera á hormónum til að viðhalda hormónaframleiðslu.

Kynfæra aðgerð (kynleiðréttingaraðgerð)

Fyrir þá sem vilja undirgangast kynfæra aðgerðir er í boði að undirgangast þær hérlendis og þarf að sækja um að undirgangast þær sérstaklega hjá teymi Landspítala. Frekari upplýsingar varðandi aðgerðir er hægt að nálgast hjá stjórn Trans-Ísland eða í gegnum nefndina innan Landspítalans.

Aðgerðir og annað

Brjóstnám sem er framkvæmt hérlendis af læknum sem starfa innan sérfræðiteymisins. Hvenær brjóstnám er framkvæmt er einstaklingsbundið og í samráði við teymi Landspítala. Einnig er í boði að fara í legnám og láta fjarlægja eggjastokka ef fólk kýs slíkt. Allt er þetta gert í samráði við teymi Landspítala.Skeggrótartaka er möguleg hérlendis og hefur fólk leitað sér lasermeðferðar hérlendis til slíks. Húðlæknastöðin á Smáratorgi hefur verið að þjónusta trans fólk og hefur reynst vel.

Frekari upplýsingar má finna hér: http://www.hudlaeknastodin.is/

Talmeinafræðingur og iðjuþjálfi starfa einnig innan teymis og veita þjónustu ef einstaklingar óska eftir slíku.

Nafnabreyting og breyting á kyni hjá Þjóðskrá

Einstakingar geta sótt um að nafn og kyn verði leiðrétt í þjóðskrá eftir að hafa verið í formlegu ferli í a.m.k. 18 mánuði. Slíkt leyfi verður að sækja um hjá fyrrnefndu sérfræðiteymi innan Landspítalans. Eingöngu er í boði að skrá kyn sem annað hvort “karl” eða “kona” eins og staðan er í dag, og eru sömuleiðis nánast öll nöfn kynjuð samkvæmt lögum um mannanöfn.

Kostnaður

Hormónar, nafnabreytingar, skeggrótartökur, tímar og annað hjá sérfræðingum er á kostnað viðkomandi einstaklings. Eina sem er borgað að fullu eru kynfæraðgerðir og brjóstnám, sem eru borguð af sjúkratryggingum.Frekari upplýsingar varðandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins er hægt að nálgast hjá teymi Landspítala eða með að hafa samband við stjórn Trans Íslands.

Trans (transgender) er griðarlega stórt regnhlífarhugtak sem að nær yfir fjöldann allan af hópum sem eiga það sameiginlegt að þeirra kynvitund, kyntjáning eða upplifun er á skjön við það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu. Þar undir falla meðal annars flokkar á borð við transsexual, genderqueer, genderfluid, non-binary, bigender, þriðja kynið o.s.frv. og er listinn alls ekki tæmandi.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að upplifun einstaklinga er mismunandi og er engin algild skilgreining eða upplifun rétt eða röng. Ekki allt trans fólk leitar sér heilbrigðisþjónustu og það trans fólk sem gerir það fer mismunandi leiðir og undirgengst jafnframt ekki endilega kynfæraaðgerð þrátt fyrir að undirgangast hormónameðferð.

Eitt af því mikilvægasta er rétt orðanotkun, en talað er um trans fólk, trans konur, trans karla og kynleiðréttingu eða kynfæraaðgerðir. Trans konur eru einstaklingar sem var úthlutað karlkyni við fæðingu en eru konur og trans karlar einstaklingar sem fengu kvenkyn úthlutað við fæðingu en eru karlar.

Það er gríðarlega mikilvægt að tala um trans fólk samkvæmt þeirra kynvitund og nota þau fornöfn sem að þau nota burtséð frá hvernig einstaklingur lítur út eða hvaða persónulegu skoðun þú hefur. Sumt trans fólk kýs einnig að nota kynlaus fornöfn á borð við “hán.” Ef það er óljóst hvaða fornafn skal nota, endilega spurðu viðkomandi hvaða fornafn þau vilji nota.

Frekari upplýsingar varðandi transgender hugtakið er hægt að finna hér.

Einnig er hægt að nálgast stuttan fræðslubækling á íslensku hér.

Formlegt teymi innan Landspítala vinnur að málefnum trans fólks og halda utan um heilbrigðisþjónustu og allt sem tengist henni. Hægt er að komast í samband við teymið með því að senda póst á transteymi@landspitali.is og fá þannig tíma hjá fagaðilum teymisins. Athugið að ekki þarf lengur að fá tilvísun frá heimilislækni.

Fyrir félagslegan stuðning er hægt að hafa samband við stjórn Trans Íslands í gegnum tölvupóst, stjorn@transisland.is eða á facebook síðu félagsins.

Að nota binder er lang öruggasta leiðin fyrir fólk með brjóst til að fletja brjóstkassann. Fólk getur valið að nota bindera af ýmsum ástæðum.Nú er hægt að gefa notaða bindera til Trans Íslands og munu upplýsingar um þá og stærðir o.þ.h. birtast hér á þessari síðu.Þá má afhenda sjálfboðaliðum Trans Íslands á félagsfundum eða senda með pósti.

Samtökin ’78 bt. Trans Ísland
Suðurgötu 3
101 Reykjavík

Áhugasöm geta sent inn beiðnir um bindera á stjorn@transisland.is með titlinum “Binder”